*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Fólk 20. janúar 2020 14:52

HS Orka ræður Sunnu Björg og Björk

Sunna Björg Helgadóttir og Björk Þórarinsdóttir eru nýir framkvæmdastjórar hjá HS Orku.

Ritstjórn
Sunna Björg Helgadóttir stýrir tæknisviði en Björk Þorsteinsdóttir stýrir fjármála- og þjónustu hjá HS Veitum.
Aðsend mynd

HS Orka hefur ráðið tvo nýja framkvæmdastjóra til starfa, þær Sunnu Björg Helgadóttur og Björk Þórarinsdóttur.

Sunna Björg Helgadóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku og hefur störf hjá fyrirtækinu í byrjun febrúar. Sunna er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. gráðu í efna- og vélaverkfræði.

Hún hóf sinn starfsferil hjá ISAL og starfaði þar samtals í 14 ár, síðast sem framkvæmdastjóri Rafgreiningar frá 2013 – 2015. Þá tók hún við starfi framkvæmdastjóra tæknisviðs hjá Alvotech frá 2015-2018 og nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Codex á Íslandi.

Björk Þórarinsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála- og þjónustu og tekur við starfi í lok janúar. Björk er með Cand. Oecon. af stjórnunarsviði frá Háskóla íslands og próf í verðbréfamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík.

Í dag rekur Björk ráðgjafafyrirtæki á sviði viðskiptaþróunar, stefnumótunar og fjármálaráðgjafar. Áður starfaði hún m.a. hjá Arion banka (áður Kaupþing) á skrifstofu bankastjóra og sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Hún starfaði sem fjármálastjóri erlendis í alþjóðlegum fyrirtækjum í tæp 10 ár og hefur talsverða reynslu af setu í ýmsum stjórnum og ráðum.

HS Orka rekur tvö jarðvarmaorkuver í Svartsengi og á Reykanesi. Þá verður fyrsta vatnsaflsvirkjun fyrirtækisins í Tungufljóti gangsett á næstu dögum. Fyrirtækið hyggur á stækkun Reykjanesvirkjunar og Svartsengisvirkjunar með betri nýtingu á þeirri gufu sem nú þegar er nýtt til orkuframleiðslu og án þess að auka upptekt.