Að sögn Sverris Bergs Steinarssonar, framkvæmdastjóra Árdegis, var ljóst að félagið myndi eiga í verulegum erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar eftir gjaldþrot dönsku raftækjakeðjunnar Merlin.

Stjórnir BT ehf. og Árdegis ehf. hafa nú óskað eftir gjaldþrotaskiptum hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Það var ljóst að það myndu hverfast yfir dómínó-áhrif þegar Merlin fór yfirum. Mest öll fjármögnunin í Danmörku hafði farið fram í gegnum móðurfélagið. Síðan höfum við verið að reyna að verja þetta vígi og færa víglínuna en þetta eru erfiðir tímar," segir Sverrir.

Enn er nokkur verslunarrekstur undir stjórn Sverris. Nordex ehf., dótturfélaga Árdegis, rekur verslanir undir nöfnum NOA NOA og NEXT og eru þær enn opnar og verða áfram sagði Sverrir enda rekstur þeirra góður.

Rekstur Skífunnar var seldur til Senu ehf. en Skífan rekur þrjár verslanir, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, á Laugavegi og í Kringlunni.

Sverrir sagðist vonast til að unnt yrði að opna aftur BT verslanirnar undir stjórn nýrra eigenda enda sagðist hann vita til þess að það væru margir áhugasamir aðilar sem vildu skoða reksturinn.

Aðspurður um skuldir Árdegis sagði Sverrir Berg að þær væru talsverðar en það hefði verið trú manna að á móti væru góðar eignir.

„Verst var að í Danmörku vorum við komnir á lokametranna við að selja Merlin þegar bankarnir hrundu yfir okkur. Miðað við það verð sem var í skoðun hefðum við getað borgað allar skuldir, bæði langtíma- og skammtímaskuldir, en samt átt góðan pening eftir. Skuldirnar voru ekki meiri en það."