Verktakafyrirtækið Suðurverk vinnur nú að því að selflytja 600 þúsund rúmmetra af grjóti í væntanlega Landeyjahöfn. Til þessa verks eru notaðar stórvirkar vinnuvélar og fjöldi námutrukka sem vega fulllestaðir um 100 tonn. Þeir munu þurfa að fara samtals um 150 þúsund ferðir fulllestaðir á verktímanum.

„Það er búið að ákveða að setja heljarmikið ræsi í gegnum Suðurlandsveginn vestan við Markarfljótsbrúna þar sem við getum keyrt trukkana í gegn. Það yrði dálítið mikil töf á því að keyra allt þetta efni þvert yfir veginn því þetta eru um 150 þúsund ferðir á trukkunum yfir verktímann. Við byrjum svo vonandi í byrjun maí að keyra efnið niðurúr,” segir Dofri Eysteinsson framkvæmdastjóri Suðurverks.

Suðurverk hóf framkvæmdir á svæðinu í haust og er ærið verkefni framundan. Samkvæmt útboði á gerð varnargarða við Ála og Markarfljót að vera lokið 1. nóvember 2008. Gerð brúar á Ála skal lokið 1. maí 2009. Uppmokstri úr hafnarkví skal lokið 1. júlí 2009. Fyrir 1. október 2009 eiga brimvarnargarðar að vera komnir í fulla lengd.  Þá skal verkinu að fullu vera lokið þann 1. júlí 2010.

„Við höfum verið nokkuð heppnir með veður og ég held að það sé ekki hægt að segja annað en verkið hafi gengið eins og til var ætlast. Það hafa þó komið erfiðir dagar uppi í fjalli. Það þýðir ekki að reyna að keyra trukkana í hálku. Menn ráða ekkert við þessa trukka ef þeir fara af stað í hálku. Við söltum veginn og það þýðir ekki annað en að hafa hann í lagi, öðruvísi er ekki keyrt,” segir Dofri Eysteinsson.