IKEA hefur kynnt nýjan vörulista og markar hann upphaf nýs rekstrarárs hjá félaginu. Samkvæmt fréttatilkynningu lækkar verð á öllum húsbúnaði í IKEA og nemur meðaltal lækkunarinnar um 5%. Verðið gildir til 15. ágúst 2015.

Fram kemur í tilkynningunni að IKEA sé unnt að lækka verð vegna nokkurra samverkandi þátta. Í fyrsta lagi sé það vegna sterkari krónu sem styrkst hafi meira en búist var við. Í öðru lagi hafi tekist samningar um hagstæðara innkaupaverð vegna stöðugleika í efnahagsmálum og að lokum hefði flutningskostnaður lækkað. Þá segir að fyrirtækið sé stolt af því að nýta þetta tækifæri til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og auknum kaupmætti landsmanna.