Embætti sérstaks saksóknara leitaði í morgun hjá MP banka, Seðlabanka Íslands og ALMC, sem áður hét Straumur fjárfestingabanki. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að húsleitirnar tengist rannsókn embættisins ætluðum brotum sem framin voru í Landsbankanum fyrir bankahrun. Húsleitirnar standa enn yfir og handtökur hafa átt sér stað. Von er á tilkynningu frá sérstökum saksóknara síðar í dag vegna málsins.

Samkvæmt upplýsingum frá MP banka komu menn frá sérstökum saksóknara þangað í morgun til að handleggja gögn. Ekki kom fram í húsleitarheimildinni um hvaða gögn væri að ræða né hvort þau tengdust bankanum eða viðskiptavinum hans. Enginn var handtekinn í MP banka í morgun.

Húsleit hjá ALMC, gamla Straumi, stendur enn yfir. Enginn hefur verið handtekinn þar heldur. Starfsmenn sérstaks saksóknara eru enn að leita hjá Seðlabankanum. Þar voru gefnar þær skýringar að húsleitirnar tengdust rannsókn á föllnu bönkunum. Verið er að ræða við nokkra starfsmenn Seðlabankans vegna málsins.