Hvalur hf. tapaði 72,5 milljónum króna af rekstri vegna hvalveiða fyrirtækisins á síðasta fjárhagsári. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi Hvals sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun .

Í ársreikningnum kemur fram að tekjur vegna seldra hvalaafurða hafi numið tæpum 1.055 milljónum króna og tekjufærðar voru 882,5 milljónir króna vegna birgðabreytingar hvalafurða.

Hins vegar nam kostnaður vegna reksturs hvalveiðiskipa, kostnaður í Hvalfirði og útflutningstengdur kostnaður 2.010 milljónum króna. Bein afkoma fyrirtækisins af hvalveiðirekstri var því neikvæð um 72,5 milljónir króna.

Einnig má ætla að langstærsti hluti annars kostnaðar sé vegna hvalveiða félagsins. Þannig nam kostnaður í Hafnarfirði rúmum 120 milljónum króna og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 158,5 milljónum króna. Ekki er hægt að sjá af ársreikningi fyrirtækisins hve mikill hluti þess kostnaðar er vegna hvalveiðanna.

Þrátt fyrir þetta nam hagnaður Hvals rúmum þremur milljörðum króna, líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Er það að mestu vegna tekna félagsins af eignarhlut í Vogun hf., sem er stærsti hluthafi HB Granda, en þær námu 3,2 milljörðum króna á fjárhagsárinu.