Kenneth Peterson hefur lengi verið viðloðandi íslenskt viðskiptalíf. Hann kom líkt og stormsveipur árið 1995 og boðaði byggingu álvers á Grundartanga sem var gangsett árið 1997. Peterson er lögfræðingur að mennt og alinn upp af millistéttarfjölskyldu í Oregon í Bandaríkjunum.

Viðskiptaferill hans hófst árið 1987 þegar hann steypti sér í skuldir og keypti gamalt álver í Washington ríki sem hafði verið lokað um nokkurn tíma. Veðmálið gekk upp og hann efnaðist töluvert á álbransanum. Peterson seldi álverið á Grundartanga til bandaríska álframleiðandans Century Aluminum árið 2004 fyrir um tíu milljarða króna.

Þá var hann einnig stærsti hluthafi í fjarskiptafyrirtækinu OgVodafone en seldi 35% hlut í félaginu til Norðurljósa fyrir um fimm milljarða króna.

Nýverið var greint frá því að Kenneth Peterson og Bjarni Kristján Þorvarðarson, einn hans nánasti samstarfsmaður í gegnum tíðina, ætluðu að byggja 40 herbergja gistiheimili í Reykholti í Biskupstungum.

Áður en heimsfaraldurinn skall á var stefnt á að opna gistiheimilið næsta sumar. Bjarni er í dag forstjóri lyfjafyrirtækisins Coripharama.

Þeir unnu meðal annars að uppbyggingu Hibernia Networks sem rekur sæstrengi og ljósleiðaranet í Kanada, Bandaríkjunum og nokkrum Evrópulöndum. Fyrirtækið lagði meðal annars sæstreng yfir Atlantshafið árið 2015. Það var selt árið 2017 á 600 milljónir dollara, jafnvirði um 80 milljarða króna.

Fjallað er um erlenda auðmenn á Íslandi í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út í desember. Hægt er að gerast áskrifandi hér .