Íbúðalánasjóður átti í lok júní 2.049 íbúðir og er það 443 íbúðum meira en um síðustu áramót. Íbúðaeign sjóðsins hefur aukist mikið frá í byrjun árs 2010 þegar sjóðurinn átti 347 íbúðir. Á fyrri hluta árs tók Íbúðalánasjóður til sín 501 fasteign en seldi 58 á sama tíma. Af heildaríbúðum voru 846 í útleigu. Það jafngildir 41% af heildarfjölda íbúða í eigu Íbúðalánasjóðs.

Upplýsingarnar koma fram í árshlutauppgjöri Íbúðalánasjóðs.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag aukna íbúðaeign Íbúðalánasjóðs skýrast af greiðsluerfiðleika lántakenda hjá sjóðnum. Greiningardeildin segir ljóst að ætli Íbúðalánasjóður að selja íbúðirnar á skömmum tíma þá geti það haft áhrif á íbúðaverð almennt.

„Það er hinsvegar ólíklegt að það gerist en Íbúðalánasjóður hefur farið sér mjög hægt í þessum efnum,“ segir í Morgunkorninu og bent á að á síðasta ári seldi Íbúðalánasjóður 154 íbúðir og 132 íbúðir árið 2010.