Gengi 16 af 20 félögum á aðalmarkaði lækkaði í viðskiptum dagsins. Þannig lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 1,66% og er komin niður í 2.945,5 stig. Vísitalan hefur lækkað um 13,3% frá áramótum.

Iceland Seafood leiddi lækkanir á markaði, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 4,7% í 440 milljóna viðskiptum. Gengið hefur lækkað um þriðjung frá áramótum og um 43% frá hæsta gengi í maí í fyrra.

Flugfélagið Icelandair lækkaði um 4,1% í 230 milljóna veltu. Gengi bréfa Festi lækkaði um 3,8% í 280 milljóna viðskiptum, en félagið hefur lækkað um 6% síðastliðna vikuna.

Tryggingarfélagið Sjóvá lækkaði um 3,8% í 80 milljóna veltu. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 11% síðastliðna vikuna.

Einungis fjögur félög hækkuðu á markaði í dag. Þeirra á meðal er Arion banki, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 0,3%. Uppgjör fyrsta ársfjórðungs bankans var birt í dag, eftir lokun markaða.

Brim hækkaði síðan um 1,6% í 350 milljóna viðskiptum, Origo um 1,4% í 250 milljóna viðskiptum og Síldarvinnslan um 0,5% í 370 milljóna viðskiptum.

Heildarvelta á markaði nam tæpum 6 milljörðum króna. Þar af var mesta veltan með bréf í stóru bönkunum á markaði, Arion banka og Íslandsbanka. Námu viðskipti með bréfin 1,1 milljarða króna.