Í aðdraganda ársfundar ASÍ hefur Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, lýst því yfir að hún vilji draga sig í hlé sem varaforseti og  mun hún því ekki bjóða sig fram til þeirra starfa áfram.

Þetta kemur fram á vef ASÍ en þar segir að fyrir ársfundi ASÍ liggi tillögur að lagabreytingum þar sem m.a. er gert ráð fyrir að í stað ársfunda verði eftirleiðis haldin þing á tveggja ára fresti, auk þess sem staða formannafunda fær fastan og formlegan sess í skipulagi Alþýðusambandsins.

„Verði þessar tillögur samþykktar er ljóst að kosið verður á fundinum til allra helstu trúnaðarstarfa á vegum ASÍ, þ.e. forseta, varaforseta og miðstjórnar, til tveggja ára. Samkvæmt núgildandi lögum er kosið sitt hvort árið til embættis forseta og varaforseta ásamt helmingi miðstjórnar,“ segir á vef sambandsins.

Fram kemur að Ingibjörg R. hafi átt við erfið veikindi að stríða síðustu mánuði en er nú á batavegi.