Innanríkisráðuneytið hefur veitt ríkissaksóknara öll þau gögn sem til eru í ráðuneytinu um mál er varðar kæru Katrínar Oddsdóttur héraðsdómslögmanns fyrir hönd Evelyn Glory Joseph hælisleitanda sem synjað var um hæli með úrskurði Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins. Kæra hefur verið send til lögreglu vegna trúnaðarupplýsinga sem birtust um hana og Tony Omos á mbl.is og á fréttavefnum Vísi.

Að auki hefur ráðuneytið farið fram á enn frekari athugun á öllum tölvutækum gögnum málsins, að höfðu samráði við Persónuvernd og með sérstöku samþykki allra starfsmanna ráðuneytisins, svo hægt sé að tryggja að ríkissaksóknari hafa allar forsendur til frekari ákvarðana um málið.

Í tilkynningu á vef innanríkisráðuneytisins er ítrekað að í desember var farið ítarlega yfir málið í ráðuneytinu, auk þess sem framkvæmd var sérstök athugun af rekstrarfélagi stjórnarráðsins. Sú athugun benti ekki til þess að trúnaðargögn hafi farið frá ráðuneyti til annarra en þeirra sem lagalega eiga rétt á þeim.

Ráðuneytið fagnar ítarlegri og vandaðri skoðun ríkissaksóknara, en ítrekar að starfsmenn geta ekki á meðan á þeirri skoðun stendur tjáð sig frekar um málið.