„Það er þrýstingur upp á við. Verð er að hækka,“ segir Guðrún R. Jónsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar Hagstofunnar, um nýjustu verðbólgutölurnar sem Hagstofan birti í morgun. Tölurnar sýna að verðbólga helst óbreytt í 6,4%.

Guðrún bendir á að innflutningur á nýjum bílum og nýskráningar þeirra hafi aukist um 60% á milli ára og eldsneytisverð hækkað um 12% á milli ára ofan í 5% gengisveikingu krónunnar á sama tíma. Þá hækkaði húsnæðisliðurinn, rekstur eigin húsnæðis og húsaleiga á milli mánaða. Það þrýstir verðbólgunni frekar upp. Þá hafi útsölulok og og reglubundnar verðhækkanir sem fylgja nýjum sumarfatnaði verslunum haft áhrif á verðbólgutölurnar til hækkunar.

Aukinn innflutningur á nýjum bílum og nýskráningar, verðhækkun á olíu og eldsneyti og dagvöru vega þungt í verðbólgutölum mánaðarins. Það skýrist ekki síst af því að vísitalan er reiknuð út frá nýjum grunni sem byggir á útgjaldarannsókn Hagstofunnar á árunum 2008 til 2010. Í nýja grunninum, sem endurskoðaður er í mars á hverju ári, jókst vægi ferða og flutninga, þ.m.t. rekstur bíls og flugfargjalda. Þessi liður fór úr 15,8% í 17,9% aðallega vegna þess að kaup á nýjum jukust á milli ára. Þá jókst vægi reksturs eigin húsnæðis fór úr 24% í 25,2%.

Ekki hefur verið reiknað út hver verðbólga væri miðað við eldri vísitölugrunn. En endurnýjun grunnsins sem slík veldur ekki breytingu á vísitölunni.