Stjórn Íslandsbanka ákvað, eftir lokun markaða í gær, að nýta heimild sína til sölu á 1.000 milljónum nýrra hluta. Verð bréfanna var 18,6 krónur á hlut eða samtals 18,6 milljarðar króna.

Alls óskuðu 80 fagfjárfestar eftir hlutafé að fjárhæð 29 milljarðar króna og var umframeftirspurn því 56%. Gjalddagi kaupanna er 16. janúar, að því segir í tilkynningu frá bankanum til Kauphallarinnar.

?Þessi aukning hlutafjár gefur bankanum kost á meiri vexti en við höfðum áður áætlað. Jafnframt rennir hið aukna eigið fé sterkum fjárhagslegum stoðum undir reksturinn," segir Bjarni Ármannsson, bankastjóri.

Bankinn seldi jafnframt í gær til fjárfesta áður útgefna hluti í Íslandsbanka sem keypt voru af Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka fyrir um 10 milljarða króna.

Stjórn bankans ákvað einnig á fundi sínum í gær að leggja til við aðalfund félagsins sem haldinn verður 21. febrúar næstkomandi að hluthöfum bjóðist að fá allt að helming arðgreiðslu ársins 2006, fyrir árið 2005, í formi nýrra hluta í félaginu á verði sem mun ekki verða hærra en 18,6 krónur á hlut.

Þá ákvað stjórn bankans að kaupauki starfsfólks bankans verði greiddur í formi hlutafjár og munu starfsmenn fá hlutafé í félaginu á verði sem mun ekki verða hærra en 18,6 krónur á hlut. Á fundi sínum þann 31. janúar nk., þegar reikningar ársins 2005 verða afgreiddir og kynntir, mun stjórn taka ákvörðun um fjárhæð kaupauka starfsfólks og tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu.