Verkefnastjórn Norðurslóðaráætlunar Evrópusambandsins samþykkti á fundi sínum í liðnum mánuði tólf ný verkefni og eru íslenskir þátttakendur í fjórum þeirra, en alls voru umsóknir nítján talsins. Heildarkostnaður  verkefna með íslenskum þátttakendum  eru 520 milljónir króna.  Norðurslóðaráætlunin (Northern Periphery Programme – NPP) nær yfir tímabilið 2007 til 2013 og eru þátttökulöndin auk Íslands; Finnland, Svíþjóð, Skotland, Norður Írland, Írland, Noregur,Grænland og Færeyjar. Norðurslóðaáætlunin heyrir undir iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun rekur landsskrifstofu Norðurslóðaáætlunarinnar á Íslandi. Stuðla að bættu atvinnulífi Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að bættu atvinnu- og efnahagslífi auk eflingar búsetuþátta með fjölþjóða samstarfsverkefnum á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Áhersla er m.a. lögð á að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja séu hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs. Áætlunin er samkeppnissjóður sem rekin er á svipuðum forsendum og rannsóknaráætlanir innan EES-samningsins, þar sem umsóknir keppa í gæðum um það fjármagn sem til ráðstöfunar er.

Framlag íslenskra stjórnvalda til áætlunarinnar verður samtals  1.200.000 Evrur árin 2007 til 2009, eða um 114 milljónir króna. Heildarfjármagn áætlunarinnar að viðbættum mótframlögum eru um sjö milljarðar íslenskra króna fyrir árin 2007–2013.   Umsóknir eru metnar af sérfræðingum frá öllum aðildarlöndunum og er stuðningur háður a.m.k. 50%  mótframlagi umsóknaraðila hvað íslenska þátttöku varðar.