Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson er skráður í þjóðskrá, og þar með kennitala hans, á annan dag en hann er fæddur að því er fram kemur í spjalli hans í Bakaríinu á Bylgjunni þar sem hann og Einar Kárason rithöfundur mættu til að tala um bók þeirra sem kemur út á raunverulegum afmælisdegi Jóns Ásgeirs.

Viðskiptablaðið sem kom út fyrir helgi birti kafla úr bókinni , sem ber titilinn Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en þar er annars vegar fjallað í ítarlegu máli um Aurum málið svokallaða, þar sem honum var gefið að sök að hafa látið lána fyrir veði í verðlausu félagi, sem þó er enn starfandi.

Hins vegar var í öðrum kafla sem Viðskiptablaðið greindi frá fjallað um viðskiptaævintýri núverandi sósíalistaforingjans Gunnars Smára Egilssonar sem Jón Ásgeir sagði helst ekki hafa nennt til að sinna útþenslu fjölmiðlanna sem hann stýrði til Danmerkur nema hafa fengið undir sig einkaþotu.

Í þættinum Bakaríið ræddu þeir Jón Ásgeir og Einar Kárason við þáttastjórnendurna Svavar Örn Svavarsson og Evu Laufey Kjaran Hermannsdóttur um bókina og ýmis atriði þeirra mála sem hún fjallar um, til að mynda hvaða trú menn þurfi að hafa til að komast í gegnum málaferli áratugum saman.

„Ef þú ert með góða sannfæringu um að þú sért með góðan málstað hjálpar það mjög mikið og það var það sem ég var með, góðan málstað gegn þessum ofsóknum,“ segir Jón Ásgeir m.a. í viðtalinu.

Einnig var hann spurður hvernig á því stæði að hann ætti tvo afmælisdaga, en bókin kemur út á raunverulegum afmælisdegi hans, fimmtudeginum 28. janúar næstkomandi.

„Kennitalan mín er 2701, en afmælisdagurinn er 28., ég reyndi að breyta þessu einhvern tímann og tölvan sagði bara nei, þú breytir þessu ekki,“ sagði Jón Ásgeir sem spurður hvort það sé nokkuð slæmt að eiga tvo afmælisdaga sagði það oft koma sér mjög vel.

„Sagan er sögð [þannig] frá foreldrum mínum að ljósmóðirin hafi verið að flýta sér á ball, og haldið að króinn kæmi fyrir miðnætti og var hún [því] búin að búa til skýrsluna. Í þá daga fóru feður oft líka á ballið, þannig að það var enginn til að leiðrétta þessi mistök og þau hafa verið með mér alla tíð.“

Jón Ásgeir er fæddur árið 1968 en 27. janúar það ár er laugardagur.