Varnargrein Jóns Ásgeirs fyrir dómstóli í New York þar sem hann sætir nú stefnu af hálfu slitastjórnar Glitnis, sýnir fram á að hann sagði blaðamanni á fréttavefnum Vísir.is ósatt þegar hann var spurður út í frétt Viðskiptablaðsins í mars sl.

Viðskiptablaðið greindi frá því á forsíðu þann 18. mars sl. að Jón Ásgeir Jóhannesson væri búinn að stofna félagið JMS Partners Limited ásamt Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs og Don McCarthy, stjórnarformanni House of Fraser.

Fram kom í fréttinni að tilgangur félagsins væri að setja lágvöruverslunarkeðju á stofn undir heitinu Best Price Foods. Bónus á Íslandi átti að vera fyrirmynd verslunarkeðjunnar.

Í frétt blaðsins segir; „Í samtali Viðskiptablaðsins við Jón Ásgeir fyrir áramót var hann spurður um hugmyndir að rekstri búða undir nafninu Best Price. Hann sagði engar slíkar hugmyndir á borðinu en viðurkenndi að þetta nafn hefði verið rætt á skrifstofu sinni í London. Það hefði verið leikur að hugmyndum og ekkert byggi þar að baki. Jón Ásgeir svaraði ekki símtölum eða textaskilaboðum vegna þessarar fréttar í gær og fyrradag."

Sama dag, þann 18. mars sl., birtist frétt á Visir.is með fyrirsögninni „Hefur engin áform um að opna verslun í London."

Þar lét Jón Ásgeir hafa eftir sér; „Engin plön eru á mínum borðum um að opna búð í London."

Í niðurlagi fréttarinnar segir einnig; „Jón Ásgeir hafnar því hins vegar alfarið að hann sé með slíkar áætlanir í farvatninu." Hér er hægt að lesa Vísis í heild .  Rétt er að taka fram að fréttastofa Vísis er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs.

Í fyrrnefndri varnargrein Jóns Ásgeirs segir hann að JMS Partners Limited hafi ætlað að setja á stofn verslunarkeðju sem ætlað var að selja matvöru á lágu verði. Hins vegar hafi Landsbankinn verið því mótfallinn þar sem um mögulega samkeppni væri að ræða við Iceland verslunarkeðjuna, en Jón Ásgeir sat í stjórn hennar á þessum tíma.

Er því vitnisburðurinn því í algjörri mótsögn við það sem Jón sagði við blaðamann á Visir.is. Hann sagði honum ósatt. Vitnisburðurinn staðfestir hins vegar frétt Viðskiptablaðsins frá 18. mars sl.