Evran hefur tvær hliðar og við verðum að sætta okkur við þær báðar. Við getum þess vegna ekki tekið einhliða upp evru.

Þetta sagði Jón Þór Sturluson, hagfræðingur á fyrirlestrinum Einhliða upptaka evru eða upptaka með inngöngu Íslands í Evrópusambandið? sem nú stendur yfir í Háskólanum í Reykjavík.

Hann sagðist þó vera sammála Ársæli Valfells, sem hélt fyrirelstur á undan Jón Þór og fjallaði um einhliða upptöku evru, um að hér þyrfti að skipta um gjaldmiðil. Hann sagðist vera þeirra skoðunar að best væri að Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki þannig upp evru en aftur á móti væru ýmsir möguleikar í stöðunni í millitíðinni.

Jón Þór sagði verðlag á Íslandi vera hátt og það væri ein ástæða þess að við þyrftum að skipta um gjaldmiðil. Með upptöku evru væri hægt að ná niður verðlagi. Hann sagði umræðu um verðhækkanir við upptöku evru vera mýta og hefði fyrst og fremst byggst á væntingum en ekki raunveruleika.

Þá sagði Jón Þór að vissulega væru ókostir við upptöku evru. Þannig væri peningastefnu landsins fórnað og efnahagslægðir gætu orðið dýpri en ella þar sem stjórnvöld hefðu ekki valdtæki til að bregðast við. Hann sagði þó raunsveiflur hafa minnkað í öllum evrulöndum nema í Þýskalandi auk þess sem verðbólgustig hefði minnkað stórlega.

Jón Þór sagði evruna ekki skapa aukið atvinnuleysi líkt og gjarnan væri haldið fram. Vissulega væri meira atvinnuleysi á evrusvæðinu en það mætti ekki rekja til evrunnar.

Þá sagði Jón Þór reynsluna af peningamálastjórnun hér á landi ekki vera góða, verðbólga væri mikil auk þess sem miklar sveiflur væru í framleiðslu. Hann sagði að evran gæti orðið þarft ankeri en útilokaði ekki sveiflur í hagkerfinu.

Jón Þór sagði að með einhliða upptöku evru þyrfti að kaupa upp grunnfé auk þess sem bankakerfið yrði skilið eftir án þrautalánsveitanda. Þannig myndi Seðlabanki Evrópu ekki styðja á bakvið því kerfi sem ekki hefði samkomulag við bankann.

Jón Þór sagði að dýrt væri að taka upp „rangt gengi“ þegar og ef skipt væri um gjaldmiðil. Ef gengið væri of hátt myndi það hafa lamandi áhrif á útflutning og samkeppnisgreinar en ef það væri of lágt myndi það orsaka óhóflega skuldabyrði þar sem stór hluti skulda Íslendinga væri í erlendri mynt.

Í fyrirlestri sínum gagnrýndi Jón Þór nýlega grein Ársæls þar sem því var haldið fram að með einhliða upptöku evru væri hægt að ná fram 94% sparnaði, þ.e. að hún myndi kosta um 80 milljarða en ekki 1.200 milljarða eins og gjarnan er haldið fram.

Jón Þór sagði þetta ekki rétt og sagði að upptaka evru myndi ekki losa okkur undan ábyrgðum gagnvart erlendum stöðum bankanna. Hann sagði að Ísland myndi ekki geta tekið upp nýjan gjaldmiðil án samstarfs við nágrannaþjóðir okkar.