*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 20. maí 2020 13:16

Kæra Ríkiskaup vegna átaksverkefnis

Pipar/TBWA hefur kært útboð og samninga við M&C Saatchi upp á 300 milljónir. Segja að þeir hefðu bara fengið 242 milljónir.

Ritstjórn
Guðmundur Pálsson er framkvæmdastjóri Pipar\TBWA og formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa
Eva Björk Ægisdóttir

Auglýsingastofan Pipar/TBWA hefur kært Ríkiskaup vegna þeirrar ákvörðunar að ganga að tilboði bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi í verkefninu „Ísland – saman í sókn“, sem er markaðsátak sem stjórnvöld ákváðu að ráðast í til landkynningar á Íslandi sem ferðamannastaðar á erlendum mörkuðum í kjölfar COVID-19.

Þess er krafist í kærunni að samningsgerin við M&C Saatchi verði stöðvuð um stundarsakir meðan kærunefnd leysi úr kærunni, og að ákvörðunin um að ganga til samninga við félagið verði endanlega felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að Ríkiskaup gangi þess í stað að tilboði kærenda, sem var í öðru sæti í útboðinu.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA og formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa segir það vera undarlegt að senda eigi verkefni sem þetta til Bretlands núna. 

„Á sama tíma og breska ríkið hefur ákveðið að sniðganga EES í öllum útboðum þetta árið, segir Guðmundur. „Slíkt hlítur að eiga að virka í tvær áttir."

Kæran byggir á því að brotið hafi verið gegn meginreglu laga um opinber innkaup með þátttöku bresku stofunnar, bæði vegna úthlutunar breskra stjórnvalda án útboða á 1 milljarða sterlingspunda verkefnum til breskra fyrirtækja, en sérstaklega því M&C Saatchi hafi ekki fyllt út innkaupaskjal fyrir innri markað ESB þar sem sérstakur kafli er um að upplýsa um spillingarmál, sem fréttir bárust af hér á landi daginn eftir útboðið.

„Í ljós hefur komið að breska fjármálaeftirlitið hefur hafið rannsókn á fyrirtækinu, vegna 11,6 milljón punda (rúmlega 2ja milljarða króna) bókhaldsbrota,“ segir í kærunni. „Jafnframt hefur komið fram í fréttaflutningi að stjórnendur fyrirtækisins hafi viðurkennt að rangfærslur í bókhaldi gætu náð mörg ár aftur í tímann.“

Jafnframt segir í kærunni að ekki hafi veri jafnfræði milli aðila, þar sem breska stofan sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili á Íslandi og þar sem útboðið miðaðist við 300 milljóna fyrirframákveðna upphæð þá þýði það að M&C Saatchi fái alla upphæðina, en einungis tæplega 242 milljónir króna fyrir skattskyld félög á Íslandi.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum segir Guðmundur það grátlegt að horfa á eftir því sem hann kallaði þá 1,5 milljarða átaksverkefni úr landi þegar samið var við bresku auglýsingastofuna M&C Saatchi Ltd. Hins vegar segir Magnús Magnússon stofnandi og framkvæmdastjóri Peel, sem er íslenskur samstarfsaðili bresku stofunnar, að íslenskt auglýsingafólk verði ráðið í verkefnið.

Guðmundur segir Pipar\TBWA í dag vera með yfir 40 manns í vinnu og á hlutabótaleið.

„Ef þetta mál endar okkur í vil þá fer fólkið af hlutabótaleiðinni og það ásamt skattgreiðslum sem yrði af þessu verkefni á Íslandi mun að öllum líkindum gera það að verkum að verkefnið kostar nettó 0 krónur fyrir ríkið ef við vinnum verkið. En ef það fer til Bretlands þá kostar það 300 milljónir,“ segir Guðmundur.

„Það er mikið búið að tala um í þessu máli að það sé ólöglegt að mismuna fyrirtækju í útboðum eftir þjóðerni. Það er gott og blessað. En það ætti að gilda í báðar áttir. Nú í þessu útboði var mismunað eftir þjóðerni erlendu stofunni í vil. Það er undarlegt í útboði sem heitir Ísland saman í sókn.“

Íslenskar stofur ekki átt möguleika ef til rannsóknar

Guðmundur segir að engin íslensk auglýsingastofa hefði átt möguleika á því að vinna útboð sem þetta með sömu sögu að baki og M&C Saatchi.

„Stofa sem er til rannsóknar fyrir stórfelld fjársvik sem ekki var upplýst fyrir dómnefnd þegar útboðið fór fram. Þar er brotið gegn jafnræði og mismunað gagnvart innlendum fyrirtækjum. Þar sem fréttir af þessu máli höfðu ekki ratað í íslenska fjölmiðla. Þar sem um flýtiúboð var að ræða þá sinnti Ríkiskaup ekki rannsóknarskildu sinni fyrir útboðið og ætti því að gera það eftir útboðið og útiloka fyrirtæki sem ekki upplýsir um hluti sem þetta við tilboðsgerðina,” segir Guðmundur.

„Einn dómari dæmir á skjön við alla dómnefndina og gefur okkur 3 í einkunn í öllum liðum á sama tíma og allir aðrir dómarar gefa okkur topp einkunn. Bara þessi dómari einn og sér veldur því að verkefnið endar í Bretlandi en ekki á Íslandi.”

Brandenburg var í þriðja sæti í útboði Ríkiskaupa, en aðrir þátttakendur en ofannefndir voru, Deloitte ehf., Design Group Italia I.D. S.R.L, ENNEMM, H:N Markaðssamskipti, Hanapin Marketing, Hugsmiðjan, Hvíta húsið ehf., KarlssonWilker Inc., Kunde & Co A/S, MUST, neusta Grafenstein GmbH og The Brookly Brothers.