Félag í eigu Karls Steingrímssonar, kenndur við Pelsinn, hefur auglýst Vesturgötu 6-8 til sölu, sem oft hefur verið nefnt Naustið, eftir samnefndum veitingastað sem var þar til húsa í meira en hálfa öld. Húsið á sér langa sögu en Geir Zoëga athafnamaður reisti húsið árið 1882.

Í fasteignaauglýsingu á vef Mbl kemur fram að húsið sé skráð 707 fermetrar en nýtanlegir fermetrar séu talsvert fleiri þar sem stór hluti efstu hæðar liggi undir súð.

Gistileyfi er á efri hæð samkvæmt deiliskuplagi og leyfi er fyrir bjórböðum í kjallara og veitingastað eða bistro á aðalhæðinni. Þá sé tilbúið eldhús með stórum háf á aðalhæð.

Í fasteignaauglýsingunni er sagt frá því að Geir hafi byggt báða gafla hússins árið 1883 og sex árum síðar lengt það til vesturs. Geir var umsvifamikill á sinni starfsævi og fékkst meðal annars við útgerð, verslun og búskap. Fyrstu árin var húsið bæði notað sem verslunarhús og saltverkunarhús. Árið 1897 byggði hann fiskgeymsluhús við vesturgaflinn sem var síðan stækkað árið 1902. Þá komust húsin í núverandi stærð. 1915 var settur kvistur á verslunarhúsið og gluggarnir stækkaðir tveimur árum seinna og þar var rekin Geirsbúð allt til ársins 1982.

Viðskiptablaðið sagði nýlega frá því að Karl hefði einnig sett Pósthússtræti 17 á sölu, sem jafnan er kennt við Skólabrú, en það var byggt af Jónasi Jonassen landlækni árið 1907.