Kanadadollarinn hefur fallið um heil 17% gagnvart bandaríkjadalnum það sem af er ári, og heldur áfram að lækka.

Gengi gagnvart dollar er 72 bandarísk sent fyrir hvern kanadadal. Til samanburðar kostar nú rétt í kringum 1,4 kanadadal að kaupa einn bandaríkjadal.

Lækkun gjaldmiðilsins er sú önnur mesta í sögunni, en aðeins féll gengi hans meira árið 2008 í kjölfar alþjóðlegu kreppunnar. Þá féll það um 18,6% á einu ári.

Ástæðu lækkunarinnar kann að vera hægt að rekja til sílækkandi olíuverðs, sem og mismunarins í peningastefnumálum seðlabanka Kanada og Bandaríkjanna.

Eins og kunnugt er hækkaði Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, stýrivexti seðlabankans um 0,25% á miðvikudag síðastliðinn. Kanadíski seðlabankinn hefur gefið í skyn að engar hækkanir séu á döfinni þarlendis.