Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem er enn með formlegt stjórnarmyndunarumboð sem hún hlaut frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, 16. nóvember, hugsar nú málið um hvort að hún láti reyna á það að mynda nýja stjórn.

Viðræður fimm flokka; Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar fóru út um þúfur í gær. Katrín segir í samtali við Mbl.is að hún sé enn að meta stöðuna og hitti þingflokkinn sinn í dag til að fara yfir hana.

Katrín hyggst heyra í forseta Íslands um hádegi til að upplýsa hann um stöðu mála. Þó hefur enn ekki verið ákveðið um formlegan fund.