Breski tískuvöruframleiðandinn Ted Baker hefur samþykkt yfirtökutilboð frá Authentic Brands upp á 211 milljónir punda, eða sem nemur 35 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Authentic Brands (AB) hafði upphaflega boðið hærra í félagið, upphæð sem nemur 160 pundum á hlut. Í kjölfar þess að eftirspurn eftir breskum tískuvörum dróst saman lækkaði AB tilboð sitt niður í 110 pund á hlut, eða sem nemur 221 milljónum punda. Kaupverðið var 18% hærra en hlutabréfaverð Ted Baker við lokun markaða síðastliðinn mánudag.

Í kjölfar tilboðsins hækkaði gengi bréfa Ted Baker um 16% víð opnun markaða í gær og hefur gengið hækkað um 32% undanfarna viku, en félagið er skráð í London kauphöllinni.

Authentic Brands, sem keypti Reebok frá Adidas á síðasta ári, á einnig fatamerkin Forever 21 og Juicy Couture sem og ímyndarrétt Marilyn Monroe. Fyrr á þessu ári samdi félagið um að verða meðeigandi og stjórnandi að alþjóðlega vörumerkinu David Beckham.

Sjá einnig: Vandræði Ted Baker halda áfram

Ted Baker hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum á undanförnum árum. Fjárhagur félagsins hefur þó batnað að undanförnu. Tap félagsins á síðasta ári dróst saman um rúmlega 60 milljón punda á milli ára, fór úr 107,7 milljón punda tapi niður í 44,1 milljón punda tap. Þá jókst velta félagsins á milli ára um 20,5% og nam 430 milljónum punda á síðasta ári.

Í tilkynningu segir Jamie Salter, forstjóri Authentic Brands, að Ted Baker sé einstakt breskt vörumerki sem neytendur um allan heim tengi við.