Sænska fjármálaeftirlitið greindi frá því í gær að kauphöllin í Dubai hefði brotið hlutabréfalög með kaupum sínum á 4,9% hlut í OMX kauphallarsamstæðunni þann 9. ágúst síðastliðinn - jafnframt gerði félagið kaupsamning um að auka hlut sinn í OMX upp í samtals 27,4% - þar sem í raun hafi verið um að ræða formlegt kauptilboð. Fjármálaeftirlitið hyggst engu að síður ekki grípa til aðgerða sökum þessa; kauphöllin í Dubai hafi nú þegar brugðist við og lagt fram formlegt yfirtökutilboð í OMX, sem á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum.

Í tilkynningu sem kauphöllin í Dubai sendi frá sér í gær kemur fram að félagið muni nú halda yfirtökuferlinu áfram, en næsta skref þess verður að skila inn gögnum um yfirtökutilboð sitt í OMX til fjármálaeftirlitsins, sem í kjölfarið mun hefja rannsókn á því hvort kauphöllin uppfylli tiltekin skilyrði um að vera "viðeigandi" eigandi að OMX.

Í frétt Financial Times segir að þessi þáttur í yfirtökuferlinu gæti ráðið miklu en sænsk stjórnvöld álíta sænsku kauphöllina vera hluta af "strategískum iðnaði" sem önnur lögmál gildi um heldur en aðra geira í atvinnulífinu. Blaðið hefur eftir sænskum lögfræðingum að það gæti reynst stjórnendum kauphallarinnar í Dubai erfitt að sannfæra fjármálaeftirlitið um að kauphöllin uppfylli þau skilyrði, sérstaklega í ljósi þess að fjármálaeftirlitið hafi nú þegar sagt kauphöllina hafa brotið lög með kaupunum í OMX.

Sumir sérfræðingar telja líklegt að kauphöllin í Dubai muni slíta samstarfi sínu við HSBC, sem var ráðgjafi þess í aðdraganda kaupanna, sökum úrskurðar fjármálaeftirlitsins.