Kaupþing banki hefur, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, lokað dótturfélagi sínu í London, New Bond Street Asset Management, en hjá fyrirtækinu unnu á þriðja tug starfsmanna.

Það mun hafa legið fyrir í allnokkurn tíma að starfsemi New Bond Street Asset Management yrði hætt enda ekki lengur grundvöllur fyrir þeim viðskiptum sem fyrirtækið átti í, en þau voru fyrst og fremst á sviði eignastýringar með ýmiss konar skuldabréfavafninga (CDOs) auk annarrar eignastýringar fyrir fagfjárfesta.

Þannig var á sínum tíma staða Kaupþings í áhættusömum húsnæðislánum í Bandaríkjunum á vegum New Bond Street Asset Management en tekið skal fram að Kaupþing er ekki lengur með stöðu í slíkum lánum.