*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 31. október 2019 10:55

Kísilverið metið á 5,5 milljarða

Arion banki hefur afskrifað á sjötta milljarð króna vegna kísilvers United Silicon. Það er nú metið á 5,5 milljarða króna.

Ritstjórn
Kísilverið hefur þegar kostað Arion á sjötta milljarð króna.
Haraldur Guðjónsson

Arion banki metur kísilver sem rekið var af United Silicon í Reykjanesbæ á 5,5 milljarða króna í bókum sínum. Arion banki var aðal lánveitandi verkefnisins og tók verksmiðjuna yfir þegar fyrirtækið eftir að fyrirtækið var lýst gjaldþrota í byrjun síðasta árs.

Verksmiðjan var ræst í nóvember 2016 en fljótlega fóru viðvörunarbjöllur að hringja. Áhyggjur nágranna af mengun og ólykt, eldur í verksmiðjunni og deila við verktaka um framkvæmdakostnað einkenndu fyrstu mánuðina í rekstri. Þá hefur Magnús Garðarsson, helsti hvatamaður á bak við kísilverið verið kærður til héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelldan fjárdrátt úr United Silicon. Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina fyrst í tæpan mánuð í apríl og fram í maí 2017. Félagið fór í greiðslustöðvun í ágúst 2017 og Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina á ný 1. september og krafðist úrbóta. Fyrirtækið var lýst gjaldþrota í janúar 2018. Í kjölfarið tók Arion banki verksmiðjuna yfir en hann var stærstu kröfuhafi þrotabúsins. Síðan þá hefur bankinn unnið að því að gera úrbætur á verskmiðjunni með það að markmiði að fá starfsleyfi á ný og selja verksmiðjuna. 

Arion banki hefur þegar afskrifað um 5,6 milljarða króna vegna kísilversins að teknu tilliti til skatta. Bankinn lýsti kröfum upp á um 9,5 milljarða króna í þrotabúi United Silicon.

Kísilverið er nú í eigu félagsins Stakksberg, sem er dótturfélag Eignabjargs, sem er í eigu Arion banka. Eignabjargs á einnig Sólbjarg sem er heldur utan um hlut bankans í ferðaskrifstofusamstæðunni inn í TravelCo. Arion banki tók TravelCo yfir í júní vegna vanskila fyrirtækisins. TravelCo hét áður Primera Travel Group og rekur ferðaskrifstofur á Íslandi og á Norðurlöndunum. Fyrirtækið var í eigu Andra Más Ingólfssonar, en gjaldþrot Primera Air fyrir ári síðan reyndist ferðaskrifstofunum þungt.

Sjá einnig: Hvert áfallið rekið annað

Eignir Eignabjargs eru metnar á 13,4 milljarða króna og skuldir á 6,9 milljarða króna í nýbirtu uppgjöri bankans. Miðað við það er eigið fé félagsins um 6,5 milljarðar króna. Miðað við að Arion banki meti kísilverið á 5,5 milljarða króna má gróflega áætla að Arion banki verðmeti TravelCo á um milljarð króna. Arion banki bókfærir 1,5 milljarða króna tap á árinu vegna kísilversins og 616 milljóna króna tap af TravelCo á árinu, samkvæmt því sem fram kemur í uppgjörinu.