*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 13. apríl 2018 09:11

Klofningurinn vegna knatthúsa

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir undirbúning knatthúss Hauka hafinn, en Björt framtíð í bænum klofnaði vegna málsins.

Ritstjórn
Haraldur L. Haraldsson er ráðinn bæjarstjóri Hafnarfjarðar af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar en síðari flokkuinn í bænum er klofinn.
Aðsend mynd

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að þó ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til byggingar knatthúss á Ásvöllum, athafnasvæði Hauka, þá sé gert ráð fyrir að gengið verði til samninga við félagið um undirbúning og hönnun slíks hús.

Deiliskipulagsvinnan er hafin að því er Fréttablaðið greinir frá, en fjárhagsáætlun bæjarins gerir hins vegar einungis ráð fyrir 720 milljóna króna framlagi á árunum 2018 til 2019 til byggingar eins knatthúss á FH svæðinu.

Björt framtíð klofnaði því FH fékk fyrst hús

Borghildur Sturludóttir varabæjarfulltrúi Bjartar framtíðar í Hafnarfirði segir klofning innan flokksins í bænum komin til vegna deilna um byggingu knatthúsa fyrir knattspyrnufélögin tvö í bænum, en eins og sagt var frá í fréttum fyrr í mánuðinum sögðu báðir bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar í bænum sig úr flokknum.

Ætla þau Guðlaug Kristjánsdóttir og Einar Birkir Einarsson að starfa áfram í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Borghildi og öðrum fulltrúum sem enn eru í Bjartri framtíð hefur verið vikið úr nefndum og ráðum bæjarins af meirihlutanum sem kaus þau þangað í upphafi.

Hefur hún verið á öndverðum meiði við meirihlutann um hvar eigi að byggja þriðja knatthús bæjarins en núverandi fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að það verði byggt á svæði stærsta félagsins í bænum, FH, sem fyrir hefur þó tvö knatthús. „Annaðhvort er fólk að fylgja hagsmunum FH og setja þá ofar hagsmunum bæjarbúa, eða það er bara að hugsa um prófkjör og atkvæði,“ segir Borghildur.