Stjórn Kögunar tilkynnti í dag ákvörðun sína um aukningu hlutafjár félagsins um 12 milljónir að nafnverði eða upp í 132 m.kr. að nafnverði. Hlutafjáraukningin verður notuð til greiðslu á hluta kaupverðs í Opin Kerfi Group en Kögun festi kaup á 35,77% hlutafjár í félaginu þann 17 ágúst síðastliðinn. Miðað við gengi á bréfum Kögunar undanfarna daga nemur söluandvirði hlutafjáraukningarinnar rúmlega 500 milljónum króna.

Kögun hf. hefur keypt hlutin í OKG af Straumi Fjárfestingarbanka hf. Kaupin, voru þá greidd með reiðufé og fóru fram á genginu 26,5 krónur á hlut. Þá var sagt að fjármögnun kaupanna færi fram með með útgáfu hlutabréfa í Kögun hf. og með lántöku. Stjórn Kögunar hf. sagðist þá ætla að nýta sér heimild í samþykktum félagsins til hlutafjáraukningar að nafnverði 22,5 milljónir. Ríflega helmingur þess verður nýttur nú.

Kaupverðið er rúmlega 2,85 milljarðar króna, en hið keypta hlutafé er að nafnvirði tæplega 108 milljónir.

?Við höfum fylgst með framgangi og útrás Opin Kerfi Group um nokkurt skeið og ákváðum að falast eftir hlut Straums í félaginu. Straumur reyndist hafa áhuga á að selja svo við gripum tækifærið," sagði Gunnlaugur M. Sigmundsson, forstjóri Kögunar í frétt þá til Kauphallarinnar og bætti við: ?Við höfum trú á framtíð Opin Kerfi Group og sjáum ýmis tækifæri til samvinnu fyrirtækjanna og samlegðar og þá ekki síst við dótturfélögin Skýrr og Teymi." Gunnlaugur segir kaupin hafa borið mjög brátt að, en að Kögun geti séð fyrir sér að eiga hlutinn áfram og taka virkan þátt í stjórn OKG eða selja hann aftur að hluta eða öllu leyti, eftir atvikum. ?Við munum koma til liðs við stjórn OKG, setja okkur inn í málefni félagsins og gera okkar besta til að styðja við vöxt þess og útrás, enda mikil rekstrarþekking og reynsla í báðum fyrirtækjunum á sviði upplýsingatækni."

Eignarhlutur Kögunar í OKG verður færður í reikninga félagsins með hlutdeildaraðferð. Viðskiptavild sem myndast verður metin hverju sinni með virðisrýrnunarprófi. Sveiflur í gengi OKG á markaði munu því ekki hafa bein áhrif á afkomu samstæðu Kögunar hf.