Jón Gnarr, borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, undirrituðu í Kolaportinu í dag samning sem tryggir rekstraraðila Kolaportsins leigu 1. hæðar Tryggvagötu 19 til næstu tíu ára eða út árið 2024.

Rekstraraðili Kolaportsins, Portið ehf. mun leigja út húsnæðið undir flóamarkað með sama sniði og hann hefur verið undanfarin ár. Kolaportið opnaði á Tryggvagötu árið 1994 en það hafði áður verið í bílageymslu bílastæðasjóðs Reykjavíkur í húsi Seðlabankans þar sem það var fyrst opnað 8. apríl 1989.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að horfið verði frá hugmyndum um að byggja nýjan ramp upp á þak hússins til að nýta það sem bílastæði. Í staðinn verður unnið að því að bæta aðgengi á norðurhlið byggingarinnar. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er um 50 milljónir króna.