Tveir erlendir menn sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir að þeir voru gripnir viið að afrita kortaupplýsingar ásamt Pin-númerum úr hraðbönkum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá Valitor segir að upphæðin sem þeim tókst að svíkja út sé ekki há.

„Valitor gerði strax ráðstafanir til þess að tryggja að þeir korthafar sem í hlut eiga yrðu ekki fyrir tjóni. Fylgt var sérstöku öryggisferli sem fer í gang ef mál af þessu tagi koma upp, en Valitor hefur fyrst íslenskra fjármála- og greiðslukortafyrirtækja hlotið alhliða öryggisvottun sem sérstaklega er ætlað að taka á kortasvikum,“ segir í tilkynningu.

„Kortasvikararnir eru erlendir ríkisborgarar sem komu hingað til lands í febrúar. Þeir komu fyrir fullkomnum afritunarbúnaði í hraðbönkunum, annars vegar til að lesa segulrendur á greiðslukortum og hins vegar settu þeir upp myndavélar til að ná myndum af innslætti Pin-númera. Þrátt fyrir aðfarir þeirra, komst upp um athæfið og handtók lögreglan þá í kjölfarið.“

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að verið sé að láta þá viðskiptavini vita sem taldir eru hafa orðið fyrir kortasvindlinu. „Kortafyrirtækin, Valitor og Borgun, sjá um vöktun kortasvika fyrir Landsbankann og fór sérstakt öryggisferli í gang um leið og málið kom upp. Landsbankinn vinnur markvisst að því að þróa eftirlit og öryggi hvað varðar sjálfsafgreiðsluleiðir viðskiptavina. Verið er að vinna meðal annars í því að innleiða örgjörva í öll greiðslukort ásamt tilheyrandi örgjörvalesurum til að koma í veg fyrir afbrot af þessu tagi.“