Kostnaður við byggingu fangelsis á Akureyri fór um 14% fram úr áætlun samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu, en framkvæmdum við fangelsið er nýlokið. Auk endurbóta og nýrrar viðbyggingar við núverandi fangelsi voru gerðar endurbætur á aðstöðu lögreglunnar í millibyggingu.

Hafsteinn Steinarsson, verkefnisstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR), segir að ekki sé búið að gera verkið endanlega upp en samkvæmt bráðabirgðauppgjöri hafi kostnaður við fangelsið numið um 260 milljónum króna. Heildarkostnaðaráætlun FSR, í október 2006 var samtals 227,9 milljónir króna. Skýringar á framúrakstrinum séu ýmsar, m.a. hafi grunnur hússins verið kostnaðarsamari en ætlað var og þá hafði verið gerðar viðbætur á byggingartíma, auk þess sem framkvæmdir á lóð voru viðameiri en ráðgert var.

Stærri klefar og bjartari fangagarður

Framkvæmdin nær til endurbóta fangelsisins í núverandi lögreglustöð og fangelsi við Þórunnarstræti á Akureyri, og viðbyggingar við það, einnig til breytinga á aðstöðu lögreglu í núverandi byggingu eftir tilkomu viðbyggingarinnar. Í fangelsinu eru nýir og stærri fangaklefar en í eldra fangelsinu, 10 fangaklefar fyrir langtímavistun fanga og 8 klefar fyrir skammtímavistun í kjallara. Þá er einn einangrunarklefi í fangelsinu. Nýr stærri og bjartari fangagarður er hluti af verkinu. Aðstaða er einnig fyrir létta vinnu fanga svo og námsaðstaða, matsalur, aðstaða fyrir líkamsrækt, heimsóknarherbergi og vinnuherbergi fyrir sérfræðinga.