Kristinn H. Gunnarsson þingmaður náði ekki í fimm efstu sætin í prófkjöri framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. Hann stefndi á 1. til 2. sætið. Þar með er Kristinn dottinn út af þingi.

Gunnar Bragi Sveinsson varð efstur í prófkjörinu og Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, hafnaði í öðru sæti.

Kristinn hefur gegnt þingmennsku fyrir þrjá flokka frá því hann varð þingmaður 1991. Fyrst fyrir Alþýðubandalagið, síðan Framsóknarflokkinn og þá Frjálslynda flokkinn.

Hann gekk úr síðarnefnda flokknum fyrr í vetur og fór aftur í Framsóknarflokkinn. Kristinn hefur einnig verið  þingmaður utan flokka.

Alls greiddu 1539 atkvæði í prófkjöri framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi eða rúmlega 60% af kjörskrá.

Lokastaðan varð þessi:

1. Gunnar Bragi Sveinsson, 782 atkvæði í 1. sæti 2.

Guðmundur Steingrímsson, 635 atkvæði í 1.-2. sæti 3.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, 897 atkvæði í 1.-3. sæti 4.

Elín Líndal, 1.135 atkvæði í 1.-4. sæti 5.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 937 atkvæði í 1.-5. sæti