Óbeit á gjaldeyrishöftunum, og ótti um afleiðingar þeirra, var mjög ríkjandi í þessum hópi og þess vegna var áherslan mjög mikil á gjaldmiðilinn og þá valkosti sem Ísland hefur í þeim efnum.

Þetta segir Þórlindur Kjartansson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins, spurður um tillögur nefndarinnar um upptöku nýs gjaldmiðils hér á landi.

Þórlindur Kjartansson
Þórlindur Kjartansson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag, og á vef blaðsins í gær , leggur nefndin það til í drögum að ályktun fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar, að krónunni verði kastað og að hafnar verði viðræður við Kanada um myntsamstarf. Í nefndinni voru fimm fulltrúar kosnir af flokksráði í beinni kosningu og auk þess tveir fulltrúar þingflokksins og einn úr hópi sveitarstjórnarmanna Sjálfstæðisflokksins.

„Við urðum fljótt sammála um að í ljósi sögu krónunnar og núverandi stöðu hennar væri óbreytt ástand alls ekki eini eða besti kosturinn,“ segir Þórlindur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við vorum líka öll sammála um að mikilvægasta verkefni flokksins sé að skapa skilyrði fyrir hagvöxt og efnahagslega velsæld í landinu - og að ef gjaldmiðillinn væri líklegur til þess að hindra þá framför, þá væri augljóst að taka þurfi á því máli.“

Kynntu sér allar hliðar

Þórlindur segir að nefndarmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa kynnt sér málin frá öllum hliðum og talað bæði við flokksmenn og fjölmarga sérfræðinga, að langskynsamlegasta, hraðvirkasta og áhættuminnsta leiðin út úr gjaldeyrishöftunum sé að skipta um mynt.

„Eftir að hafa kynnt okkur kosti og galla einhliða upptöku var það niðurstaða okkar að mæla með því við landsfund að rétt sé að láta fyrir alvöru reyna á kosti okkar hvað það varðar,“ segir Þórlindur.

„Ég sé ekki trúverðuga leið úr gjaldeyrishöftunum og ég óttast að krónan sé nú orðið svo löskuð eftir margra áratuga misnotkun, að það sé ekki raunhæft að búast við að hún öðlist á ný nægan trúverðugleika til að standa á eigin fótum.“

Krónan hefur ekki reynst vel

Þá segir Þórlindur að allir í nefndinni telji að Ísland verði að vera opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og frjálst svo það megi þrífast og blómstra.

„Gjaldeyrishöft munu rústa miklum möguleikum, einkum fyrir ungt fólk og komandi kynslóðir. Ef valið stendur á milli þess að blása lífi í gjaldmiðil sem alltaf hefur verið til vandræða - eða að stuðla að því að raunveruleg verðmætasköpun geti átt sér stað með því að leyfa Íslendingum að nota peninga sem hægt er að treysta - þá er það auðvelt,“ segir Þórlindur.

„Margir segja reyndar að krónan hafi reynst okkur vel og benda á lífsgæðin sem við njótum. Þetta finnst mér ekki sannfærandi. Miklu frekar má segja að Íslandi hafi gengið vel þrátt fyrir nánast stöðuga misnotkun stjórnmálamanna á gjaldmiðlinum. Skuldasækni heimila og fyrirtækja, viðvarandi verðbólga og verðtryggð neytendalán eru afleiðingar misheppnaðrar peningastefnu í hartnær heila öld. En jafnvel þótt við höfum komist upp með þetta í gegnum tíðina þá er heimurinn orðinn svo breyttur. Ég hef líkt þessu við það að áður fyrr létu íslenskir sjómenn sér nægja árabáta og þilskip - en til þess að komast út á stærri mið þarf öflugri skipakost. Það sama gildir nú um viðskipti í heiminum.“

Þórlindur segir að nánast hvert einasta fyrirtæki sem stofnað sé á Íslandi horfi á allan heiminn sem markað, og til þess að eiga möguleika á raunverulegri velgengni þurfa þessi fyrirtæki að starfa á sambærilega traustum grunni og þau fyrirtæki sem þau keppa við. Til þess þurfi Íslendingar sterkari grundvöll og frelsi í gjaldmiðlamálum og það fáist ekki með haftakrónunni.

Bjarni telur umræðuna ótímabæra

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Viðskipablaðið í dag að hann telji umræðuna um gjaldmiðlamálin og upptöku nýs gjaldmiðil ótímabæra.

„Ríkissjóður  hefur  verið  rekinn með miklum halla síðustu ár  og það  lítur út  fyrir  að  svo verði  áfram,“ segir Bjarni í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

„Við  erum  að  greiða  of mikið  í  vexti auk þess sem verðbólgan er  enn  of  mikil.  Okkar  helsta  verk- efni  er  að  ná  stöðugleika  í  ríkisfjármálum  og  í  efnahagsmálum þjóðarinnar. Það gerum við á  grundvelli krónunnar.“

Aðspurður  segist  Bjarni  ekki  ætla að beita sér gegn tillögunum  en hann efist þó um að ályktunin  hljóti samþykki á landsfundi eins  og  hún  hljóðar  nú.  Hann  segir  þó  að  Sjálfstæðisflokkurinn  sé  opinn  og  lýðræðislegur  flokkur  og  þoli  vel  að  taka  umræðu  um  mál eins og það hvort skipta eigi  um gjaldmiðil eða ekki. Þá  segir  hann að það geti vel farið svo að  síðar meir verði tilefni til þess að  endurskoða  gjaldmiðlamál  þjóðarinnar.  Bjarni lét svipuð ummæli falla í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Bjartsýnni en formaðurinn

Aðspurður um þessi ummæli segist Þórlindur telja ómögulegt að vanmeta óbeit sjálfstæðismanna á gjaldeyrishöftum.

„Sjálfstæðismenn vita að í haftasamfélagi blómstrar spilling á kostnað heiðarlegrar verðmætasköpunar. Þess vegna er ég mun bjartsýnni en formaðurinn á að flokkurinn taki þessum hugmyndum vel,“ segir Þórlindur.

„Reyndar trúi ég því að flokksmenn, og kjósendur flokksins, krefjist þess að ef flokkurinn kemst í forystu í ríkisstjórn þá sýni hann þá dirfsku sem þarf til að tryggja að Íslendingar búi við haftalausa og alþjóðlega gjaldgenga mynt. Ef flokkurinn kemst í ríkisstjórn og gerir það ekki þá væri sú för algjör erindisleysa. Að ná völdum en skila svo af sér með þjóðina í langvarandi höftum væri grátlegt. Að losa þjóðina undan höftunum og koma varanlegum stöðugleika á peningamálin væri hins vegar pólitískt þrekvirki. Þess vegna hlýtur forysta flokksins að vilja hafa sem flestar leiðir opnar.“