Mikið hefur verið látið með áhrif netmiðla á prentmiðla, en þau eru litlu minni á ljósvakanum. Það hafa menn helst séð af uppgangi streymiveitna á borð við Netflix, Amazon og Apple, þar sem hver er sinn eigin dagskrárstjóri, en línulg dagskrá á undir högg að sækja.

Miðað við tölur frá Bretlandi virðist hið sama upp á teningnum í hljóðvarpi. Þar hefur útvarpshlustun dalað verulega — tónlistarstreymiveitur eins og Spotify og Apple hafa þar mikið að segja — en eins hefur hlaðvarp mjög sótt í sig veðrið.

Þar er munurinn einstaklega áberandi og samhverfur eftir aldurshópum, sem hlýtur að vekja útvarpsstöðvum ugg.