*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 17. apríl 2018 16:45

Lækkun Origo nam 11,5%

Gengi bréfa Origo, N1 og Haga lækkuðu mikið í kauphöllinni í dag, meðan bréf Eikar, HB Granda og VÍS hækkuðu nokkuð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,25% í viðskiptum dagsins og fór hún niður í 1.781,68 stig. Markaðsvísitala Gamma lækkaði um 0,08% í 5,7 milljarða viðskiptum og fór hún í 166,514 stig. Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,25% líkt og úrvalsvísitalan, í 2,9 milljarða viðskiptum og fór hún í 431,187 stig.

Mest var lækkun á gengi bréfa Origo, eða um 11,51%, í 87 milljóna viðskiptum og fór gengi bréfanna niður í 20,75 krónur. Fyrr í dag hafði gengið lækkað um 8,74% en eins og Viðskiptablaðið sagði frá hafði félagið sent frá sér afkomuviðvörun vegna þess að félagið stefndi í tap á 1. ársfjórðungi.

Einnig lækkaði gengi bréfa N1 og Haga töluvert. N1 lækkaði um 4,56% í 274 milljóna viðskiptum, en sagt var frá því í dag að félagið hafði dregið til baka samrunatilkynningu sína til Samkeppniseftirlitsins vegna samruna félagsins við Festi.Hagar lækkuðu um 3,08%, niður í 42,50 krónur, í 205 milljóna viðskiptum. Icelandair, Eimskip og Skeljungur lækkuðu svo öll um ríflega 1%, önnur minna.

Eik fasteignafélag hækkaði hins vegar mest, eða um 2,68% í jafnframt mestu viðskiptunum, eða 586 milljónum króna, og fór gengi bréfa félagsins í 10,35 krónur. HB Grandi hækkaði næst mest eða um 1,34% í 77 milljóna viðskiptum og er lokagengi bréfanna 30,20 krónur. VÍS hækkaði svo um 1,11% í 250 milljóna viðskiptum og stóðu bréfin í lok dags í 13,70 krónum.

Stikkorð: Hagar Gamma Úrvalsvísitalan Kauphöll N1 HB Grandi VÍS Eik Nasdaq Iceland Origo