*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 31. maí 2021 09:25

Landsbankinn hækkar vexti

Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækka um 0,15% en vextir á verðtryggðum íbúðalánum haldast óbreyttir.

Ritstjórn
Landsbankinn hefur tilkynnt 0,15% hækkun breytilegra vaxta.
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn hefur hækkað breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,15%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Vextir verðtryggðra íbúðalána og óverðtryggðra fastavaxta lána haldast óbreyttir. Vextir óvertryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka einnig um um 0,15% og yfirdáttarvextir hækka um 0,10 - 0,25%. Ákvörðunin er tekin í ljósi vaxtahækkunar Seðlabankans frá 19. maí síðastliðnum en þá voru stýrivextir hækkaðir um 0,25%.

Ný vaxtatafla bankans mun taka gildi frá og með morgundeginum. Breytingar á vöxtum á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda munu taka gildi í samræmi við tilkynningar sem verða sendar í netbanka.   

Þann 19. maí síðastliðinn tilkynntu Neytendasamtökin að þau hygðust stefna bönkunum vegna „verulega matskenndra og ógegnsærra" skilmála á lánum með breytilegum vöxtum. Samtökin munu fara með þrjú prófmál fyrir dóm í kjölfar þess að bankarnir höfnuðu kröfu samtakanna að breyta skilmálum lánanna og leiðrétta hlut þeirra lántaka sem „hallað hefur verið á með vaxtabreytingum sem standast ekki ákvæði laga."