Bankaráð Landsbankans, NBI hf. hefur samþykkt leiðbeiningar um aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækja.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að leiðbeiningarnar taka til þess hvernig staðið skuli að endurskipulagningu fjárhags fyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann og sem eiga í erfiðleikum.

Þær séu framhald af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2. desember 2008 um hvernig skuli bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og er ætlað að útfæra betur þau tilmæli sem þar eru tilgreind.

Þá kemur fram að leiðbeiningar til starfsmanna taka til þeirra atriða sem gæta þarf að en er ekki ætlað að fela í sér fastmótaðar reglur.

Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu bankans: http://www.landsbanki.is/umlandsbankann/starfsemi/verklagsreglur