Landsbankinn hefur samið við Seðlabankann um veitingu viðbótarlána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Eins og fram hefur komið getur ríkisábyrgð brúarlána – hvers tilgangur er að liðka fyrir aðgang smárra og meðalstórra fyrirtækja að lausafé meðan á faraldrinum stendur – numið allt að 70% höfuðstóls lánsins.

Haft er eftir Lilju Björku Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans í tilkynningunni að bankinn hafi frá upphafi faraldursins „lagt áherslu á að koma til móts við og aðstoða fyrirtæki sem hafa lent í ófyrirséðum vanda vegna faraldursins. Með samningnum við Seðlabankann um veitingu viðbótarlána geta fyrirtæki sem uppfylla skilyrðin fengið enn frekari aðstoð sem getur reynst mikilvæg við þessar erfiðu aðstæður.“

Íslandsbanki skrifaði undir sambærilegan samning síðastliðinn fimmtudag , og Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka sagðist á föstudag vonast til að undirrita slíkan samning við Seðlabankann á næstunni.