Fjárveitingar til rekstrar Landspítala hækka um rúmlega 8,7 milljarða króna samkvæmt fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga í 80,8 milljarða króna á næsta ári. Í umsögn Landspítalans um fjárlagafrumvarpið, sem starfandi forstjóri Landspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir skrifar undir, segir að það vanti rúmlega 1,6 milljarða króna til að spítalinn geti staðið undir óbreyttum rekstri.

Á myndinni hér að neðan, sem tekin er úr umsögn Landspítala, má sjá sundurliðun sem heilbrigðisráðuneytið sendi spítalanum og á að lýsa breyttum fjárveitingum frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Landspítali, fjárveitingar
Landspítali, fjárveitingar

Spítalinn segir, í umsögninni, að grunnfjárveitingar til spítalans hafi lækkað um 387 milljónir króna. Þar segir að um 7,6 milljarðar, af þeim 8,7 milljarða auknum fjárveitingum, fari í laun og verðbætur og auk þess um 1,5 milljarðar í ný verkefni vegna Covid-19 faraldursins, sem innihalda meðal annars rekstur 30 nýrra endurhæfingarrýma á Landakoti.

„Spítalinn hefur ekkert fjármagn til að takast á við eðlilegar lýðfræðilegar breytingar og innleiða framfarir í meðferð sjúklinga,“ segir í umsögninni. Auk þess segir í umsögninni að spítalinn þurfi að skerða þjónustu ef engu verður breytt í fjárveitingum ríkisins til spítalans.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra tilkynnti í kvöld að hann hefði ráðið Björn Zoëga, forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, í tengslum við áherslur í heilbrigðismálum í nýjum stjórnarsáttmála, innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar og greiningarvinnu sem gerð hefur verið á framtíðarþjónustu Landspítalans.