Lántökukostnaður spænska ríkisins rauk upp í methæðir í dag. Fjármálasérfræðingar segja ástæðuna þá að fjárfestar hafi misst tiltrú á að þjóðarleiðtogar evruríkjanna nái að koma í veg fyrir að skuldakreppan á evrusvæðinu muni batna.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna funduðu um vanda spænskra banka um helgina en ríkisstjórn Spánar óskaði eftir því á laugardag að fá 100 milljarða evra til að rétta við hlut banka þar í landi.

Álag á spænsk ríkisskuldabréf til 10 ára stendur nú í rétt rúmum 6,8% og þýðir það að Spánverjar hafa þeir ekki þurft að greiða jafn mikið fyrir ný lán sín eftir að þeir tóku upp evruna fyrir þrettán árum.

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times er vitnað til umfjöllunar matsfyrirtækisins Fitch um hagkerfið Spánar. Fyrirtækið hefur lækkað lánshæfiseinkunnir 18 spænskra banka og var það tilkynnt í dag. Fitch gerir ráð fyrir að kreppan muni ríkja á Spáni næstu tvö árin þrátt fyrir væntingar um að 100 milljarða evra lán myndi slá á hana.