Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi efast um tilverurétt hins aldargamla stimpilgjalds sem sjávarútvegurinn ein atvinnugreina, þurfi að greiða af atvinnutækjum.

Þetta kemur fram í pistli Heiðrúnar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins , en þar líkir hún gjaldinu, við líflausar hárlufsur sem sumir karlmenn þráast við að greiða yfir skalla sína.

„Af einhverjum ástæðum kýs ríkisvaldið að nostra við þessar tilgangslausu lufsur ár eftir ár – og nú í rúmt árhundrað eftir frostaveturinn mikla! Má ekki segja að þetta sé komið gott,“ segir Heiðrún sem segir gjaldið bæði skekkja samkeppnisstöðu íslenks sjávarútvegs en einnig beinlínis skerða tekjur íslenska ríkisins.

„Stimpilgjaldið heftir viðskipti með skip og kemur í veg fyrir aukna hagkvæmni við veiðar. Dýrara verður að draga fisk úr sjó, með tilheyrandi tekjuskerðingu fyrir bæði fyrirtæki og starfsfólk þess. Ríkissjóður fær þá eðli máls samkvæmt lægri skatttekjur.“