Eftir lækkanir gærdagsins hækkaði úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland um 0,11% í dag og endaði i 1.820,88 stigum. Vísitalan lækkaði í gær um 0,77% og þá hefur vísitalan lækkað um 3,16% frá áramótum.

Í dag hækkaði mest gengi bréfa í HB Granda, eða um 1,72% í viðskiptum. Verð á hvert bréf félagsins nemur 32,45 krónum á hlut. Gengi bréfa Eimskipafélags Íslands hækkaði einnig, eða um 0,92%. Verð á hvert bréf nemur þá 274,00 krónum. Icelandair hækkuðu einnig um 0,46%.

Mest lækkaði gengi bréfa Haga eða um 1,25% í 47,5 milljón króna viðskiptum. Verð á hvert bréf félagsins er þá 47,50 krónur. Jafnframt lækkaði gengi hlutabréfa VÍS um 1,02% og endaði hvert bréf á að kosta 7,78 krónur.

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,07% í dag. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,05% í 129 milljón króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,12% í 1,254 milljarða viðskiptum.