Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Banque Havilland, verður leiddur fyrir dómara í héraðsdómi Reykjavíkur innan skamms, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ekki hefur tekist að fá upplýsingar um hvort að farið verið fram á framlengingu á vikulöngu gæsluvarðhaldi yfir honum sem rennur út klukkan 16:00 í dag eða hvort þess verði óskað að hann verði dæmdur í farbann.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, og Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri bankans á Íslandi, munu sitja í gæsluvarðhaldi fram í næstu viku hið minnsta. Þá er Steingrímur Kárason, fyrrum framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings, í farbanni. Samkvæmt greinargerð sérstaks saksóknara sem getið er í gæsluvarðhaldsúrskurðinum yfir Magnúsi síðastliðinn föstudag eru þeir Magnús og Hreiðar grunaðir um skjalafals, umboðssvik, önnur auðgunarbrot og markaðsmisnotkun.

Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, er enn staddur erlendis þrátt fyrir ítrekaðar boðanir um að hann eigi að mæta í yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara. Lýst hefur verið eftir Sigurði hjá alþjóðalögreglunni Interpol en breska lögreglan hefur enn sem komið er neitað að framselja hann.