*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 22. janúar 2021 14:11

Marel kaupir hollenska félagið PMJ

Marel kaupir félag sem framleiðir búnað fyrir gæsa- og andaframleiðslu og bæta þar með við þriðju stoðinni í fuglakjöti.

Ritstjórn
Starfsemi Marel er víða um heim.
Aðsend mynd

Marel hefur keypt hollenska félagið PMJ, sem það segir vera í fararbroddi á heimsvísu í lausnum fyrir gæsa- og andakjötsframleiðslu. Félagið, sem er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1998, er með um 5 milljón evra árlega veltu, eða sem samsvarar 784 milljónum íslenskra króna, og 40 starfsmenn í Opmeer í Hollandi.

Marel segir alþjóðlega andakjötsmarkaðinn stóran og vaxandi markað sem sé metinn á um 6 milljarða evra á alþjóðavísu, eða sem samsvarar 941 milljarði íslenskra króna. Framleiðslan á markaðnum sé í dag um 4,5 milljón tonn af kjöti, þar af sé um 70% af því í Kína, þar sem Marel er nú þegar með starfsemi.

PMJ hafi aukinheldur byggt upp langtímasamband við marga af stærstu andaframleiðslufyrirtækjum heims, og með söluneti Marel geti fyrirtækin fært enn frekar út kvíarnar. Marel er með tvíhliða skráningu á íslenska og hollenska hlutabréfamarkaðnum.

Heildarlausnir fyrir andaframleiðslu

Poultry Machinery Joosten B.V. er þar með fyrsta fyrirtækið innan Marel samsteypunnar, sem vaxið hefur mikið síðustu ár með kaupum á félögum, til að vera sérhæft í því að búa til lausnir fyrir allt framleiðsluferli andavinnslu. Jafnramt segist félagið nú vera í stöðu til að víkka út viðskiptavinahóp sinn enn frekar á andaframleiðslumarkaðnum og víkka út starfsemina inn á nýja markaði.

Þannig geti fyrirtækin verið í fararbroddi nútímavæðingar á andamarkaðnum í samvinnu, en stjórnendur PMJ munu áfram starfa hjá félaginu til að tryggja samfellu í þekkingu á starfseminni. Roger Claessens, framkvæmdastjóri kjúklingaiðnaðar hjá Marel segist ánægður með kaupin.

„Það er rökrétt skref fyrir Marel að útvíkka þriðju stoðina í kjúklingaiðnaði með því að styrkja starfsemi okkar í framleiðslu lausna fyrir andaiðnað til viðbótar við kjúklinga- og kalkúnaiðnað. Marel og PMJ eiga það sameiginlegt að búa yfir mikilli  tækniþekkingu  og reynslu á sviði nýsköpunar og þróunar. Lausnir PMJ búa yfir miklum gæðum og eru til vitnis um 23 ára reynslu félagsins af nýsköpun í þróun lausna fyrir andaiðnaðinn.  Með því að sameina krafta okkar og  leggja áfram áherslu á nýsköpun erum við í sterkari stöðu til að umbylta andaiðnaðinum í samstarfi við okkar viðskiptavini“.

Stikkorð: Marel PJM gæsur endur