Úrvalsvísitalan hækkaði um 2% í 2,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Marel hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,3% í 426 milljóna viðskiptum. Gengi Marels er komið upp í 568 krónur og var síðast hærra í lok febrúar.

Sex önnur félög á aðalmarkaðnum hækkuðu um meira en 2%, þar á meðal Kvika banki og Arion. Hlutabréfaverð Kviku hækkaði um 2,8% í 116 milljóna viðskiptum og stendur nú í 18,3 krónum. Gengi Arion stendur í 136,5 krónum eftir 2,3% hækkun í nærri hálfs milljarðs króna veltu í dag. Hlutabréf Íslandsbanka hækkuðu einnig um 1,7%.

Mesta veltan á First North-markaðnum var með hlutabréf Amaroq sem hækkuðu um 1,3% í 13 milljóna viðskiptum. Gengi Amaraoq stendur nú í 77 krónum eftir nærri 7% hækkun frá ‏því að félagið tilkynnti fyrir opnun markaða í gær um 7 milljarða króna lánsfjármögnun sem verður nýtt til að hefja gullvinnslu í Nalunaq námunni í Grænlandi.