*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 2. mars 2021 13:00

Margfeldiskosning hjá Skeljungi

Krafa um margfeldiskosningu barst stjórn Skeljungs frá hluthöfum sem ráða yfir meira en 10% hlutafjár félagsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Margfeldiskosningu verður beitt við stjórnarkjör á aðalfundi Skeljungs á fimmtudaginn næsta en alls hafa sex boðið sig fram í stjórn félagsins. Margfeldiskosningin kemur til vegna kröfu sem barst stjórn félagsins frá hluthöfum sem hafa yfir að ráða meira en 10% hlutafjár, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. 

Framboðsfrestur til stjórnar Skeljungs er runnin út og gáfu eftirfarandi sex aðilar kost á sér í stjórnina:

  • Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður
  • Birna Ósk Einarsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Dagný Halldórsdóttir, stjórnarmaður
  • Þórarinn Arnar Sævarsson, stjórnarmaður 
  • Nanna Björk Ásgrímsdóttir
  • Sigurður Kristinn Egilsson

Elín Jónsdóttir, forseti lagadeildar Bifrastar, situr einnig í stjórn Skeljungs en hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Tilnefningarnefnd olíufyrirtækisins lagði til að Sigurður Kristinn tæki hennar stað í stjórninni. 

Sjá einnig: Tilnefna Sigurð umfram Nönnu Björk

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að sú reynsla og þekking sem Nanna Björk býr yfir sé að finna í núverandi stjórn í meira mæli en reynsla og þekking Sigurðar Kristins.

„Þrátt fyrir að þau myndu bæði styrkja stjórnina telur nefndin, að virtu heildarmati á öllum frambjóðendum, að það yrði meiri virðisauki fyrir félagið að fá Sigurð Kristinn í stjórn til viðbótar við þá fjóra stjórnarmenn sem gefa áfram kost á sér,“ segir í skýrslunni.

Tilnefningarnefnd Skeljungs skipa Katrín Óladóttir, Sigurður Kári Árnason og Þórarinn Arnar Sævarsson stjórnarmaður. Katrín og Sigurður verða sjálfkjörin til áframhaldandi setu í nefndinni en nýkjörin stjórn félagsins skipar einn úr stjórn í nefndina í kjölfar aðalfundar.