Bandarískir hlutabréfamarkaðir hafa fallið skarpt í kjölfar tilkynningar seðlabankans um að stýrivextir verði lækkaðir í 0% auk 700 milljarða dala innspýtingar. Markaðir virðast að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ekki hafa trú á að aðgerðirnar muni duga til að mýkja áhrif kórónufaraldursins á hagkerfið.

Fjármálamarkaðir opna ekki fyrr en í fyrramálið, en framvirkir samningar með S&P500 hlutabréfavísitöluna féllu um tæp 5% og virkjuðu enn og aftur sveifluvarnir sem stöðvuðu frekara verðfall.

Fallið kemur í kjölfar mestu hækkunar í 12 ár á föstudag eftir að Donald Trump forseti lýsti yfir neyðarástandi og tilkynnti um aðgerðir til að bregðast við faraldrinum. Viðlíka sveiflur hafa ekki sést vestanhafs síðan á tímum kreppunnar miklu á fyrri hluta síðustu aldar.