*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 21. febrúar 2006 13:07

Matsfyrirtækið Fitch breytir horfum á lánshæfismati ríkissjóðs

úr stöðugum í neikvæðar vegna vaxandi þjóðhagslegs ójafnvægis

Ritstjórn

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að horfum fyrir lánshæfismat ríkissjóðs Íslands vegna skuldbindinga í innlendri og erlendri mynt hafi verið breytt úr stöðugum í neikvæðar.

Lánshæfis­einkunn fyrir erlendar langtímaskuldbindingar var staðfest AA- (AA mínus) og fyrir innlendar skuldbindingar AAA. Einnig var lands­einkunn (e. country ceiling ratings) staðfest AA og lánshæfis­einkunnin fyrir erlendar skammtímaskuldbindingar F1+.

Samkvæmt Paul Rawkins sérfræðingi hjá Fitch eru breytingar á horfum tilkomnar vegna vís­bendinga um talsvert aukna áhættu í þjóðarbúskapnum vegna ósjálfbærs viðskiptahalla og hratt vaxandi erlendra skulda.

Rawkins segir einnig að þótt einkenni ofhitnunar í hagkerfinu hafi verið til staðar um nokkurt skeið, svo sem vaxandi verðbólga, hröð útlána­aukning, hækkandi eignaverð, verulegur viðskiptahalli og stig­vaxandi erlend skuldasöfnun, þá hafi þróun þessara þátta verið óhagstæðari en matsfyrirtækið bjóst við. Útlánavöxtur yfir 30% á ári heldur áfram af fullum krafti, viðskiptahallinn á árinu 2005 varð 15% af vergri landsframleiðslu og hreinar erlendar skuldir fóru vel yfir 400% af útflutningstekjum.

Rawkins segir að á meðan ekki sé gripið til samstilltra aðgerða hafi líkur á harðri lendingu hagkerfisins aukist sem aftur vekur spurningar um hvernig fjármálakerfinu í heild muni farnast við slíkar aðstæður og um afleiðingar fyrir ríkissjóð.