Árslaun Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, eru átján sinnum hærri en meðalárslaun starfsmanna sama fyrirtækis. Þetta er stærsti munur tekna forstjóra og meðalstarfsmanns hjá skráðum fyrirtækjum á Íslandi en á eftir honum kemur Finnur Árnason, forstjóri Haga, með fimmtánföld laun meðalstarfsmanns Haga. Forstjórar þeirra fimmtán fyrirtækja sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar á Íslandi eru að meðaltali með sexföld laun meðalstarfsmanns.

Þessar upplýsingar er hægt að nálgast með útreikningum úr ársreikningum skráðra fyrirtækja fyrir árið 2014. Til að finna meðaltekjur starfsmanna fyrirtækjanna er liðnum Laun og launatengd gjöld deilt með með­ alfjölda starfsmanna yfir árið. Laun forstjóra eru einnig skráð í ársreikningunum.

Tíu sinnum launahærri en meðalíslendingur

Samkvæmt útreikningum Við­ skiptablaðsins eru mánaðarlaun starfsmanna skráðra íslenskra fyrirtækja að jafnaði um 800 þúsund krónur. Það er þó gróflega áætlað þar sem t.d. mótframlag í lífeyrissjóð er tekið með í reikninginn. Þetta er næstum tvöfalt hærri upphæð en meðaltal reglulegra launa á Íslandi árið 2014 samkvæmt Hagstofunni eða 441.000 krónur á mánuði.

Ef hlutfall forstjóra skráðra íslenskra fyrirtækja á móti meðalstarfsmanni á Íslandi er skoðað kemur fram að forstjórar skráðra íslenskra fyrirtækja þéna um tíföld meðalárslaun Íslendinga. Í þeim samanburði er Jón Sigurðsson með 34-föld árslaun meðalstarfsmanns á Íslandi en á eftir honum kemur Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, með fjórtánföld meðalárslaun Íslendinga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .