Fréttir um umsvifamikla fjárfesta og efnahagsmál eru áberandi á lista yfir mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar á því viðburðaríka ári sem er að líða, þar sem kreppt hefur að fyrir tilstilli kórónuveirufaraldursins.

6. Ósjálfbær verðlagning

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði frá því í viðtali í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, að samkeppni á markaði fyrirtækjalána hér á landi hafi verið mjög mikil undanfarin ár og í raun verið þannig að verðlagningin hafi verið orðin ósjálfbær.

7. Íslendingur háttsettur hjá Vivino

Rætt var við Birki A. Barkarson í tímariti Frjálsrar verslunar fyrr á árinu. Hann hefur komið við gerð gagnagrunns Vivino, smáforritsins sem gerir notendum kleift að fræðast um vín, en Vivino er stærsti stafræni miðill vínheimsins. Birkir hefur starfað hjá Vivino frá árinu 2013 og þar af síðustu þrjú ár sem tæknistjóri þess (e. CTO). Áður en Birkir gekk til liðs við Vivino starfaði hann í Tókýó í Japan en hann segir að áhugi á vínum og leit að almennilegu vínappi hafi orðið til þess að leiðir hans og Vivino lágu saman.

8. ESB ekki leyst úr sínum vanda

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra var tekin tals í tímariti Frjálsrar verslunar fyrr á árinu. Í viðtalinu sagði hún sveiflur á gengi krónunnar hafa orsakað óstöðugleika í hagkerfinu í gegnum tíðina. Krónan hafi á þeim tíma verið að gefa eftir sem vakti áhyggjur margra af hækkandi verðlagi og verðbólguskoti. Hún sagði þó stefnu stjórnvalda í gjaldmiðlamálum vera óbreytta.

9. Auðmenn: Fiskikóngur Hvíta-Rússlands

Hvít-rússneski olígarkinn Aleksandr Moshensky var á listanum Frjálsrar verslunar yfir 30 af umsvifamestu erlendu fjárfestunum í íslensku atvinnulífi. Honum hefur verið lýst sem manninum sem bjó til markað fyrir íslensk loðnuhrogn í Austur-Evrópu. Moshensky hefur lengi verið stórtækur í sölu á íslenskum fiski í gömlu austantjaldsríkjunum. Vegna þessa var hann gerður að ræðismanni Íslands í Hvíta-Rússlandi árið 2005 og gegnir hann þeirri stöðu enn. Moshensky á sterk tengsl við Ísland og hefur oft heimsótt land og þjóð.

10. Leggja í ferðalag með vörumerkjum

Í tímariti Frjálsrar verslunar var rætt við Alberts Muñoz, einn eigenda Ulysses, tiltölulega ungrar hönnunarstofu sem sérhæfir sig í mörkun, með það að markmiði að framkvæma djarfar hugmyndir og skapa grípandi ásýnd fyrir viðskiptavini sína. Meðal þekktra vörumerkja sem Ulysses hefur unnið fyrir má nefna Víking, Listahátíðina í Reykjavík, Icelandic Lamb, Þjóðminjasafnið, Kex Hostel, Norður Salt, Austurhöfn, Good Good og Fiskmarkaðinn.