Gengið hefur hægt að dreifa álaginu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar yfir daginn hingað til, en fyrir nýja flugrekstraraðila eru nú bara ákveðnir tímar í boði ólíkt því sem áður var. Vandamálið í flugstöðinni er nokkuð augljóst, álagspunktarnir dreifast ekki nóg yfir sólarhringinn.

Flugáætlun Icelandair er þannig uppbyggð að ferðir til Evrópu fara snemma á morgnana og koma aftur upp úr kl. 15 á daginn. Flugin til Ameríku fara síðan frá Keflavík upp úr kl. 17 og koma aftur á milli 6-7 á morgnana. Þannig eru mestu álagspunktarnir á milli kl. 5-8 á morgnana og 15-18 á daginn.

Morgunflug Iceland Express til Evrópu er einnig snemma á morgnana.

Þessu verður ekki breytt hjá Icelandair þar sem félaginu tekst með þessum hætti að halda uppi tengiflugi á milli Evrópu og Ameríku. Aukin umsvif félagsins mun að mestu auka á fyrrnefnda álagspunkta.

Hins vegar er Icelandair eina flugfélagið sem flýgur á milli Evrópu og Ameríku í gegnum Keflavík. Það er því óopinber stefna flugvallarins að fá önnur félög til að fljúga á öðrum tímum sólarhringsins. Þannig er nokkuð um áætlunar- og leiguflug um miðnætti á sumrin, flug Delta kemur inn frá New York upp úr kl. 9 á morgnana og fer aftur fyrir hádegi svo dæmi séu tekin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.